„Mér líður hræðilega. Mér líður ekki vel,“ sagði Berglind Björg Þorvaldsdóttir, sóknarkona Íslands, í samtali við mbl.is eftir 1:4-tapið gegn Portúgal eftir framlengingu í umspili um laust sæti á HM í gær.
„Við gáfum allt í þetta en það gekk ekki upp í dag. Við höfum klárlega spilað betri leiki en þetta,“ hélt hún áfram.
Berglind Björg var gáttuð á frammistöðu franska dómarans Stéphanie Frappart og vandaði henni ekki kveðjurnar.
„Það er fúlt þegar dómarinn er svona hræðilegur eins og hann var í dag. Það er talað um að þetta sé besti kvendómari í heimi en mér fannst hún langt frá því í dag. Hún tók margar skrítnar ákvarðanir og ekkert féll með okkur.“
Hún nefndi þá sérstaklega vítaspyrnudóminn og rauða spjaldið sem Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir fékk snemma í síðari hálfleik.
„Þetta meikar engan sens, ég var að sjá vídeó af vítinu þeirra. Þetta var aldrei rautt og aldrei víti. Þetta er bara fáránlegt. Hún fer í skjáinn og skoðar þetta en dæmir samt víti og rautt. Þetta er fáránlegt.
Þetta er klárlega ákvörðun sem breytir leiknum. Þetta hefur náttúrlega áhrif. Við erum einum færri mestallan leikinn. En „shit happens“.“
Berglind Björg kvaðst finna mikið til með Áslaugu Mundu.
„Þetta er ömurlegt fyrir hana að lenda í. En hún er sterkur karakter og mun stíga upp úr þessu.“
Spurð hvað henni hafi þótt um portúgalska liðið sagði hún:
„Mér fannst þær ekkert yfirspila okkur í dag. Vissulega vorum við orðnar þreyttar í framlengingunni og með þrjár til baka. Leikmenn voru búnir að leggja mikið á sig og við fáum á okkur þessi þrjú mörk í framlengingunni. Mér fannst þær ekkert það frábærar.“
Berglindi Björgu fannst þó sem íslenska liðið hefði mátt skapa sér fleiri færi í leiknum.
„Við hefðum oft getað komið okkur í betri stöður og í rauninni fengum við ekkert það mikið af færum ef ég á að vera hreinskilin,“ sagði hún.
Hún sagði andrúmsloftið inni í klefa hafa verið afar erfitt eftir leik.
„Það var bara mjög þungt. Þetta er ömurlegt því það er langt í næsta stórmót. Það er pínu tómarúm núna en við þurfum bara að halda áfram.
Við hittumst næst aftur á næsta ári þannig að við höfum nokkra mánuði til að jafna okkur. Ég veit að við komum sterkar til baka,“ sagði hún.
Mikið hefur verið rætt um að fjöldi leikmanna íslenska liðsins hafi misst af sínu síðasta tækifæri til þess að fara á HM með niðurstöðu gærdagsins. En hvernig horfir það við hinni þrítugu Berglindi Björgu?
„Ég fæ alveg kvíðahnút í magann þegar þú segir þetta! Það eru fimm ár í þetta en ég er ekkert að fara að hætta í fótbolta strax. Vonandi komumst við bara á HM eftir fjögur ár og ég verð þar,“ sagði hún að lokum í samtali við mbl.is.