Aga- og úrskurðarnefnd Knattspyrnusambands Ísland hefur úrskurðað Víking úr Reykjavík í heimaleikjabann vegna hegðunar stuðningsmanna liðsins á úrslitaleik bikarkeppninnar sem fram fór á Laugardalsvelli hinn 1. október.
Leiknum lauk með 3:2-sigri Víkinga eftir framlengdan leik en á fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ í gær var tekin fyrir skýrsla eftirlitsmanns KSÍ á leiknum.
Sjálfboðaliði í gæslunni sagði í samtali við mbl.is eftir leikinn að stuðningsmenn á vellinum hefðu orðið sér til skammar með slæmri hegðun.
Ásamt því að fá eins leiks heimaleikjabann, sem þýðir að félagið þarf að leika næsta heimaleik sinn á hlutlausum velli, voru Víkingar sektaðir um 200.000 kr, FH-ingar um 50.000 krónur og KSÍ var sektað um 200.000 krónur þar sem framkvæmd leiksins var í höndum Knattspyrnusambandsins.
Úrskurðurinn í heild sinni:
Niðurstaða varðandi KSÍ:
Það er mat aga- og úrskurðarnefndar að þau atvik sem lýst er í skýrslu eftirlitsmanns í framangreindum bikarúrslitaleik og varða að mestu framkomu áhorfenda og stuðningsfólks, hafi verið vítaverð og hættuleg gagnvart leikmönnum, dómurum, þjálfurum og öðrum. Að mati nefndarinnar er það ljóst að viðeigandi aðildarfélög skuli bera ábyrgð á framkomu félagsmanna og stuðningsmanna sinna vegna ámælisverðrar eða óásættanlegrar framkomu þessara aðila innan vébanda KSÍ, sbr. grein 5.10. laga KSÍ. Hins vegar þá geti félögin ein ekki borið ábyrgð á að öryggi og regla sé tryggð á Laugardalsvelli fyrir leik, á meðan leik stendur og eftir leik enda framkvæmd leiksins í höndum KSÍ. Sé öryggi og regla ekki tryggð þá beri KSÍ, sem framkvæmdaraðili leiksins, ábyrgð í samræmi við fyrrnefnda grein 23.3.7. í reglugerð um knattspyrnumót. Það á við nema sýnt sé fram á að skipulagning og framkvæmd leiks hafi ekki á nokkurn hátt verið gáleysisleg. Er það í samræmi við 1. mgr. 16. gr. agareglna FIFA.
Að virtri greinargerð Knattspyrnusambands Íslands og öðrum fyrirliggjandi gögnum er það álit nefndarinnar að við framkvæmd úrslitaleiks bikarkeppninnar hafi öryggi og regla ekki verið tryggð. Sérstaklega hafi öryggi leikmanna, dómara, þjálfara, áhorfenda og annarra ekki verið nægilega tryggt fyrir leik, á meðan leik stóð og eftir að leik lauk. Er það jafnframt mat nefndarinnar að KSÍ sem framkvæmdaraðila leiksins hafi ekki tekist að sýna fram á að skipulagning og framkvæmd leiks hafi ekki á nokkurn hátt verið gáleysisleg.
Með vísan til þess ákvað aga- og úrskurðarnefnd KSÍ að sekta Knattspyrnusamband Íslands vegna atvika sem lýst er í skýrslu eftirlitsmanns í bikarúrslitaleik FH og Víkings R. þann 1. október 2022. Með tilliti til fjölda þeirra hættulegu atvika sem lýst er í skýrslu eftirlitsmanns og vörðuðu öryggi og reglu á Laugardalsvelli þá þykir nefndinni hæfilegt að sekta Knattspyrnusamband Íslands um kr. 200.000,-.
Niðurstaða varðandi FH:
Að virtri greinargerð knattspyrnudeildar FH og öðrum fyrirliggjandi gögnum er það álit nefndarinnar að framkoma áhorfenda og stuðningsfólks FH í framangreindum leik FH og Víkings R. hafi verið vítaverð og hættuleg. Að mati nefndarinnar sé það ljóst að sérhvert aðildarfélag skuli bera ábyrgð á framkomu félagsmanna og stuðningsmanna sinna vegna ámælisverðrar eða óásættanlegrar framkomu þessara aðila innan vébanda KSÍ, og getur sætt viðurlögum sem nánar er kveðið á um í lögum þessum og reglugerðum KSÍ, sbr. grein 5.10. laga KSÍ. Framkoma áhorfenda FH í bikarúrslitaleik liðsins gegn Víkingi falli undir ákvæði 12.9.d. í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál.
Þá vísar nefndin einnig til c) liðar 2. mgr. 16. gr. agareglna FIFA en í samræmi við grein 23.2. eru agareglur FIFA (FIFA Disciplinary Code) ákvæðum reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál til fyllingar, eftir því sem við á.
Með vísan til framangreinds ákvað aga- og úrskurðarnefnd KSÍ að sekta Knattspyrnudeild FH vegna framkomu áhorfenda félagsins í leik liðsins við Víking R. þann 1. október 2022. Þykir nefndinni upphæð sektar knattspyrnudeildar FH hæfilega ákveðin kr. 50.000,-.
Niðurstaða varðandi Víking R:
Að virtri greinargerð knattspyrnudeildar Víkings R. og öðrum fyrirliggjandi gögnum er það álit nefndarinnar að framkoma áhorfenda og stuðningsfólks Víkings R. í framangreindum leik FH og Víkings R. hafi verið vítaverð og hættuleg gagnvart leikmönnum, dómurum, þjálfurum og öðrum. Að mati nefndarinnar sé það ljóst að sérhvert aðildarfélag skuli bera ábyrgð á framkomu félagsmanna og stuðningsmanna sinna vegna ámælisverðrar eða óásættanlegrar framkomu þessara aðila innan vébanda KSÍ, og getur sætt viðurlögum sem nánar er kveðið á um í lögum þessum og reglugerðum KSÍ, sbr. grein 5.10. laga KSÍ. Framkoma áhorfenda Víkings R. í bikarúrslitaleik liðsins gegn FH falli ótvírætt undir ákvæði 12.9.d. í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál.
Með vísan til framangreinds ákvað aga- og úrskurðarnefnd KSÍ að sekta Knattspyrnudeild Víkings R. vegna framkomu áhorfenda félagsins í leik liðsins við FH þann 1. október 2022. Með tilliti til fjölda þeirra vítaverðu og hættulegu atvika sem lýst er í skýrslu eftirlitsmanns og varða áhorfendur Víkings R. þykir nefndinni rétt að sekta knattspyrnudeild Víkings R. um kr. 200.000,- sem er hámarkssekt samkvæmt grein 12.9.d. Jafnframt er það mat aga- og úrskurðarnefndar, í ljósi alvarleika þeirra brota sem lýst er í skýrslu eftirlitsmanns, að rétt sé að úrskurða knattspyrnulið Víkings R. í mfl. karla í heimaleikjabann sem nemur 1 leik í keppnum á vegum KSÍ. Þannig verði knattspyrnuliði félagsins í mfl. karla gert að leika næsta heimaleik sinn í keppnum á vegum KSÍ á hlutlausum velli.