„Mín fyrsta upplifin er sú, þegar ég horfi yfir þessa stærstu leiki liðsins á árinu, að lukkudísirnar hafi ekki verið með okkur í liði,“ sagði Freyr Alexandersson, fyrrverandi þjálfari kvennalandsliðsins í knattspyrnu og núverandi þjálfari danska úrvalsdeildarliðsins Lyngby, í samtali við Morgunblaðið en Freyr stýrði liðinu frá 2013 til ársins 2018 og fór með það á eitt stórmót, Evrópumótið í Hollandi árið 2017.
„Liðið fer taplaust í gegnum Evrópumótið, gerir þrjú jafntefli, en nær samt sem áður ekki að vinna leik. Tveir af þessum leikjum, gegn Belgíu og Ítalíu, voru svokallaðir 50/50 leikir og það vantaði herslumuninn upp á að ná í sigur þar. Heilt yfir var Evrópumótið á Englandi að mörgu leyti gott mót hjá íslenska liðinu og það gerir sem dæmi jafntefli gegn Frakklandi, sem er stórkostlegt lið. Fyrirfram er jafntefli gegn Frakklandi mjög góð úrslit,“ sagði Freyr.
Eftir Evrópumótið fékk Ísland tvö tækifæri til þess að tryggja sér sæti á HM 2023.
„Við lendum undir mikilli pressu í þessum Hollandsleik í september en varnarlega var leikurinn mjög vel spilaður af okkar hálfu. Það var grátlegt að missa þann leik niður í tap og það er alveg ljóst að við söknuðum Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur mikið í þeim leik. Hún býr yfir ákveðnum eiginleikum sem fáir leikmenn hafa, og við fundum mjög vel fyrir fjarveru hennar í Hollandi.
Portúgalsleikurinn var svo hálfgerður skrípaleikur, sérstaklega ef við horfum á það hvernig sá leikur þróaðist.
Viðtalið við Frey í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag