Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, lét hafa eftir sér, að Víkingur hafi staðfest skriflega að félagið boði áfrýjun á því heimaleikjabannni í einn leik, næsta heimaleik sínum í keppnum á vegum KSÍ, sem félaginu var gert að sæta skv. úrskurði aga- og úrskurðarnefndar KSÍ á dögunum. Bannið hlaut Víkingur vegna framkomu áhorfenda og stuðningsfólks liðsins í bikarúrslitaleik leik FH og Víkings fyrr í þessum mánuði.
Klara segir, í samtali við Fótbolta.net, að heimaleikjabanninu sé þá frestað þar til áfrýjunardómstóll KSÍ fari yfir málið. Ef áfrýjunardómstóllinn komist að sömu niðurstöðu skuli Víkingur finna nýjan heimavöll fyrir þennan eina leik.
Athygli vekur að Víkingur þurfi aðeins að finna nýjan heimavöll fyrir þennan eina leik og að sá leikur verði ekki leikinn fyrir luktum dyrum. Það kemur fólki eflaust spánskt fyrir sjónir að þeir stuðningsmenn Víkings sem létu ófriðlega á Laugardalsvelli geti mætt á völlinn þrátt fyrir að leikurinn fari fram á hlutlausum velli. Klara segir að knattspyrnusambandið geti ekki svarað til um hvers vegna úrskurðað sé með þeim hætti, það þurfi aga- og úrskurðarnefnd að gera, enda starfi nefndin sjálfstætt og noti þau viðurlög sem ákvörðuð séu í relgugerðum. Þá bætir Klara við að hún sjálf, sem framkvæmdastjóri knattspyrnusambandsins, sitji ekki fundi aga- og úrskurðarnefndar.
Aðspurð um þá 200.000 króna sekt, sem KSÍ var gert að sæta fyrir framkvæmd á leiksins, segir Klara að KSÍ uni niðurstöðunni og þyki eðlilegast að sektin renni í gott málefni.