Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, var ánægður með sína menn eftir 2:2-jafntefli gegn Víkingi í Bestu deild karla í knattspyrnu í Víkinni í kvöld.
„Ég er gríðarlega ánægður, sérstaklega með seinni hálfleikinn. Ég er stoltur af liðinu að hafa komið til baka því fyrri hálfleikurinn var mikið ströggl. Þeir skapa fullt af færum og við virtumst vera á eftir. Við vorum svolítið barnalegir í spilinu, við vorum með ákveðnar leiðir til að spila upp og þegar þær voru ekki „on“ vorum við samt að þvinga boltanum í gegnum miðjuna.
Við ræddum saman í hálfleik og ég sagði við strákana að það eina sem væri jákvætt í þessu væri að staðan væri enn jöfn. Við hefðum ekki getað sagt neitt þó Víkingur væri tveimur til þremur mörkum yfir. Seinni hálfleikurinn var mjög flottur, þeir fengu vissulega einhver færi en við fengum líka fullt af færum, fengum dauðafæri og skjótum í stöng.“
Eins og Hallgrímur segir var mikill munur á KA liðinu á milli hálfleikja.
„Við fórum yfir viss atriði í hálfleiknum. Þegar það eru opnanir eru vissar leiðir til að spila og þegar þær eru ekki opnar viljum við fá boltann lengra upp, við erum með Elfar Árna sem er góður að taka við honum. Mér fannst við leysa þetta betur í seinni hálfleik, vorum þéttari á miðjunni og fengum góð færi eftir að við vinnum boltann. Þetta mark sem þeir skora var nú hálfgerður misskilningur, boltinn fer í gegnum allt og hann er einn í gegn.
Víkingur er gott lið og það eru mörg lið sem hefðu koðnað niður eftir svona fyrri hálfleik. Við stigum upp og ég er gífurlega stoltur af strákunum, þetta er sterkt stig á útivelli.“
Mikill vindur var í Víkinni í seinni hálfleik sem setti talsvert mark á leikinn.
„Maður sér alveg muninn á fyrri og seinni hálfleik. Við vorum með vindinn í bakið í seinni hálfleik en krafturinn sem kom í liðið var eitthvað sem er ekkert sjálfgefið að fá eftir svona erfiðan fyrri hálfleik. Maður er alltaf smá svekktur að hafa ekki náð að vinna í lokin en jafntefli var sennilega sanngjarnt miðað við seinni hálfleik.“
Þrátt fyrir að október mánuður sé langt genginn eru enn tvær umferðir eftir af mótinu. Ólíklegt er að veðurfar fari skánandi og því gætum við horft fram á ansi vont veður í þessum umferðum. Hvað finnst Hallgrími um fyrirkomulagið á mótinu?
„Ég myndi helst vilja að við myndum enda mótið fyrr. Ég myndi vilja byrja fyrr og spila þéttar á ákveðnum tímapunktum. Það er ekkert skemmtilegast í heimi fyrir áhorfendur, leikmenn né þjálfara að leikir sem kannski ráða úrslitum í deildinni séu í ömurlegu veðri. Við búum nú á Akureyri og það er ekkert alltaf gott veður þar í október. Við erum nú þegar búnir að þurfa að færa einn leik sem kom sér gríðarlega illa fyrir okkur en hentaði Breiðabliki töluvert betur. Við vorum með tvo stráka sem gátu spilað á mánudegi en af því að leiknum var flýtt og spilaður á laugardegi gátu þeir ekki verið með.
Þetta er ekki eitthvað sem ég held að sé gott fyrir íslenskan fótbolta svo ég myndi vilja enda mótið fyrr.“