Keflavík tók á móti FH í 3. umferð neðri hluta Bestu deildar karla í knattspyrnu í dag. FH var fyrir leikinn í 4. sæti neðri hlutans með 22 stig, tveimur stigum á undan Leikni sem var í fallsæti ásamt ÍA.
Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru kannski eins og við er að búast á þessum árstíma hér á landi en vindurinn gerði liðunum oft erfitt fyrir. Bæði lið náðu samt sem áður upp ágætis spilköflum og álitlegum sóknum.
Keflavík náði tveggja marka forystu í fyrri hálfleik en FH náði að minnka muninn fyrir leikhlé. Gestirnir komu mjög ákveðnir inn í seinni hálfleikinn, jöfnuðu á 55. mínútu og komust svo yfir tveimur mínútum síðar. Keflavík átti fá svör í seinni hálfleiknum og FH fór með 3:2 útisigur af hólmi. Mörk FH gerðu Guðmundur Kristjánsson, Oliver Heiðarsson og Úlfur Ágúst Björnsoon en mörk Keflavíkur gerðu Dagur Ingi Valsson og Adam Ægir Pálsson.
FH er í kjörstöðu eftir leikinn, fjórum stigum frá fallsæti en Leiknir og ÍA gerðu jafntefli í hinum leik dagsins í neðri hlutanum.