„Mér fannst við fínir að mörgu leiti og svekktur að fá ekki meira út úr þessu,“ sagði Sigurður Heiðar Höskuldsson þjálfari Leiknis eftir 2:2 jafntefli gegn ÍA í Breiðholtinu í gær þegar leikið var í neðri hluta efstu deildar karla í fótbolta, Bestu deildinni.
„Við nálguðumst þennan leik þannig að við ætluðum að sýna að við væru með meiri hjarta í þetta en Skagamenn, koma með meiri baráttu og vinna hana. Ég held að leikurinn hafi verið nokkuð jafn en, í seinni hálfleik sérstaklega, of mikið af næstum því endalaust af dauðafærum.“
Til að halda sér í efstu deild þarf margt að ganga upp í síðustu tveimur leikjunum. „Við hjólum bara í næsta leik og vinnum hann, sjáum svo hvað það gefur okkur og vonandi eigum við enn möguleika þegar kemur að síðasta leiknum í deildinni,“ sagði þjálfarinn en var líka spurður hvort honum fyndist hafa einhver áhrif í að stýra liðinu þegar ljóst er að hann verður ekki við stjórnvölinn næsta tímabil og hann svaraði pollrólegur: „Nei.“