„Við vissum þessi leikur snerist um baráttu og ákveðin gildi sem þú þarft að leggja til í svona leik,“ sagði Jón Þór Hauksson þjálfari ÍA eftir 2:2 jafntefli í dag þegar leikið var í neðri hluta efstu deildar karla í fótbolta, Bestu deildinni.
„Við vissum að völlurinn var frosinn og hvasst og kalt en þetta snerist ekki um fjölda sendinga eða hver ætti fleiri skæri inná vellinum heldur ákveðin gildi. Menn gerðu sitt besta í því og við sköpuðum okkur færi til að gera út um leikinn í seinni hálfleik en náðum ekki að nýta okkur það og urðum að sætta okkur við stigið.“
Skagamenn eiga fjarlægan möguleika á að halda sér í deildinni eftir þetta eina stig. “Við bara höldum áfram og klárum mótið af krafti, það er það eina sem við getum gert í stöðunni. Þetta er bara staðan sem við erum í, við höfum svo sem fengið fullt af tækifærum til að koma okkur úr henni en það hefur ekki gengið eftir. Vissulega hefur gengið á ýmsu, langt tímabil og margt gerst og farið úrskeiðis en það verður bara að gera það upp þegar tímabilið er búið,“ bætti þjálfarinn við.