Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, staðfesti í viðtali við mbl.is eftir 2:2-jafntefli liðsins gegn Víkingi í Bestu deild karla í kvöld að miðjumaðurinn Sveinn Margeir Hauksson verði frá út tímabilið.
Auk Sveins voru þeir Jakob Snær Árnason og Bjarni Aðalsteinsson frá í kvöld.
„Sveinn Margeir tognaði í hné eftir tæklingu á móti Blikum. Hann verður frá út tímabilið. Jakob Snær varð lasinn í nótt og gat því ekki komið með og Bjarni tognaði í síðasta leik. Við erum mjög þunnskipaðir en gerðum vel í kvöld, við gerum bara það besta úr stöðunni.“
Sveinn hefur verið nefndur í umræðunni um val á landsliðshóp fyrir leik gegn Sádí-Arabíu í upphafi næsta mánaðar. Ljóst er að þessi meiðsli setja það í mikla hættu.