Eyjamenn komnir í örugga höfn

Jannik Pohl og Eiður Aron Sigurbjörnsson í skallaeinvígi í leiknum …
Jannik Pohl og Eiður Aron Sigurbjörnsson í skallaeinvígi í leiknum í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Eyjamenn mættu tilbúnir gegn Fram í Úlfarsárdalinn í dag þegar leikið var í neðri hluta efstu deildar karla í fótbolta, nýttu flest færin sín fyrir utan misheppnaða vítaspyrnu og unnu sannfærandi 3:1, sem tryggir liðinu áframhaldandi veru í efstu deild.  Nýliðar Fram voru þegar búnir að tryggja sæti sitt.

Eyjamenn hófu leikinn með látum og áður en tvær mínútur voru liðnar hafði vörn heimamanna sofnað aðeins á verðinu, boltinn barst á Sigurð Arnar Magnússon sem tróðst framhjá vörn Fram á rétt við hægra markteigshornið þrumaði hann yfir Ólaf Íshólm í markinu og ÍBV komið í forystu.

Það vakti Framara rækilega og þeir hófu að sækja af miklum móð og náðu að hrekja gestina aftar í vörnina en gekk illa að finna dauðafærið þó stundum munaði ekki miklu, fengu samt nokkrar hornspyrnur.  Þrátt fyrir eiga aðeins undir högg að sækja voru Eyjamenn þó snöggir að sækja ef færi gefast en tókst ekki að búa til neitt umtalsvert færi.

Eyjamenn fengu þó upplagt tækifæri til að bæta við marki þegar Jesus Yendis braut hraustlega á Guðjóni Erni Hrafnkelssyni alveg við hægra vítateigshornið en fyrirliðinn Eiður Aron Sigurbjörnsson lét verja hjá sér, skaut í vinstra hornið en Ólafur Íshólm Ólafsson markmaður var mættur þangað og varði.  Svo fór um sjóferð þá.

Eftir það jafnaði leikurinn aðeins og bæði lið sóttu en ekkert gekk að koma sér í mjög góð færi eða skora.   Allt þar til á 31. mínútu þegar Eyjapeyjinn Arnar Breki Gunnarsson braust í gegnum vörn fram vinstra megin, skaut að marki úr miðjum vítateig, Ólafur Íshólm markmaður  varði í stöng en þar kom Sigurður Arnar, lagði fyrir sig boltann og skaut af öryggi framhjá varnarmönnum Fram.   Aðeins tveimur mínútum síðar kom þriðja mark ÍBV þegar Felix Örn Friðriksson gaf inná Halldór J. S. Þórðarson í miðjum vítateig og þrátt fyrir að vera með varnarmenn Fram á sér skaut hann í stöng og inn, staðan 0:3.   Eftir þetta var stuðið í Eyjamönnum og Guðjón Ernir og Telmo Castanheira áttu sitthvort færið en tókst ekki vel upp við skotið.  Framarar voru samt ekki hættir og Guðmundur Magnússon markahrellir átti ágætan skalla og Jannik Pohl gott skot af stuttu færi en það var vel varið hjá Jóni Kristni markverði.

Heimamenn mættu einbeittir til síðari hálfleiks og létu strax til sín taka.  Fyrst tókst varnarmönnum að hreinsa frá marki skot Fred Saraiva, reyndar tvívegis því vesenið á marklínu ÍBV var skrautlegt.  Á 50. mínútu átti svo Almarr Ormarsson þrumuskoti að marki gestanna en Jón Kristinn í markinu náði að koma aðeins við boltann sem fór í slánna og yfir.  Fimm mínútum síðar átti Guðmundur Magnússon skalla af stuttu færi eftir góða sendingu Más Ægissonar en vörn og markverði ÍBV tókst aftur að moka boltanum einhvern veginn útaf.  Það lá því mikið á gestunum, má vera að þeir hafi verið farnir að hugsa um að halda sjó með þessa forystu en það kann yfirleitt ekki góðri lukku að stýra.  Mark Fram lá í loftinu og skilaði sér á 66. mínútu þegar Þórir Guðjónsson stangaði boltann í markið af stuttu færi eftir hornspyrnu.   Það var mikið fjör sem eftir lifði leiks, Framarar voru mun beittari og marksæknari en vörn ÍBV var fjölmenn og tókst með erfiði að standa vaktina með þéttum varnarleik og einum sóknarmanni.

Að loknum leiknum núna á Fram eftir að spila við FH í Úlfarsárdalnum á sunnudag eftir viku og síðan Keflavík suður með sjó en ÍBV mætir i ÍA á Akranesi næsta laugardag og Leikni heima í Vestmannaeyjum í síðasta leiknum.

Fram 1:3 ÍBV opna loka
90. mín. Arnar Breki Gunnarsson (ÍBV) fær gult spjald
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert