Ómar Ingi Guðmundsson verður áfram þjálfari karlaliðs HK í knattspyrnu en hann stýrði liðinu upp í Bestu deildina í haust.
Ómar, sem er 36 ára gamall, var aðstoðarþjálfari ásamt því að vera yfirþjálfari yngri flokka HK þegar Brynjar Björn Gunnarsson hætti störfum í maí til að taka við Örgryte í Svíþjóð. Ómar tók þá við liðinu, til bráðabirgða til að byrja með, en seinna um sumarið var ákveðið að hann myndi stýra því út tímabilið.
HK komst fljótt á sigurbraut í 1. deildinni eftir að Ómar tók við og tryggði sér annað sætið af talsverðu öryggi þannig að félagið leikur á ný í efstu deild á næsta ári eftir árs fjarveru.
Ekki var ljóst til að byrja með hvort Ómar yrði einn með liðið á næsta tímabili eða með annan þjálfara með sér en nú hefur verið staðfest að hann verði þjálfari liðsins.