Knatthús rís á Ásvöllum

Frá leik Fram og Hauka á Ásvöllum.
Frá leik Fram og Hauka á Ásvöllum. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti á fundi í dag að tilboð í byggingu knatthúss fyrir Hauka á Ásvöllum hafi verið samþykkt.

Húsið mun kosta 3,4 milljarða og munu Haukar afsala sér hluta af skipulögðu íþróttasvæði undir íbúabyggð. Lóðin var seld á um 1,3 milljarð króna.

Aðstæður fyrir knattspyrnu hjá félaginu hefur verið ábótavant, en ljóst er að hún verður mun betri með nýju knatthúsi.

Yfirlýsing Hauka:

Gleðifréttir, knatthús rís á Ásvöllum.

Þær ánægjulegu fréttir voru að berast af fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar sem haldinn var í dag, 20. október, að fyrirliggjandi tilboð í byggingu knatthússins hefði verið samþykkt. Íslenskir Aðalverktakar hf. áttu lægsta tilboð í byggingu hússins og var tilboðsfjárhæðin 3.4 milljarðar og því ljóst að gengið verður til samninga við fyrirtækið. Haukar hafa lengi óskað eftir betri aðstöðu fyrir knattspyrnuiðkun á Ásvöllum og samþykkt bæjarráðs frá í morgun er því mikið fagnaðarefni.

Knattspyrnufélagið Haukar afsalaði sér hluta af skipulögðu íþróttasvæði félagsins undir íbúðabyggð til stuðning verkefninu, en lóðin var selt til byggingarfélags fyrir um 1,3 milljarða króna.

Langþráður draumur um byggingu myndarlegs knatthúss er því að verða að veruleika.

Knattspyrnufélagið Haukar þakkar bæjaryfirvöldum fyrir þann stórhug að hefja byggingu knatthúss sem svo sannarlega mun efla og styrkja möguleika til fjölbreyttrar íþróttaiðkunar á Ásvöllum og styrkja þannig enn frekar innviðauppbyggingu í nærumhverfi Ásvalla.

Áfram Haukar!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka