Leiknir leikur síðasta heimaleikinn í Árbænum

Emil Berger og Árni Salvar Heimisson eigast við í síðasta …
Emil Berger og Árni Salvar Heimisson eigast við í síðasta heimaleik Leiknis í Breiðholtinu í Bestu deild karla á þessu keppnistímabili. Leiknir hefur ákveðið að færa heimaleik liðsins gegn Keflavík á Würth völlinn í Árbænum. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Forsvarsmenn Leiknis hafa tekið ákvörðun um að færa síðasta heimaleik sinn á keppnistímabilinu í Bestu deild karla á Würth völlinn í Árbænum, en óvíst er hvort Domusnovavöllurinn verði leikfær á laugardag.

Stefán Páll Magnússon, framkvæmdastjóri Leiknis, sagði í samtali við mbl.is að ákvörðunin sé tekin í samráði við leikmenn og þjálfara liðsins.

„Ákvörðunin er ekki tekin af léttúð og það kann að vera að Domusnovavöllurinn verði leikfær á laugardag. Hins vegar getur brugðið til beggja vona og við getum ekki beðið lengur með þessa ákvörðun. Það þarf að tilkynna staðfestan leikvöll á þessum tímapunkti og þetta er niðurstaðan.“

Stefán Páll sagði að völlurinn hafi verið harður og háll við upphaf leiks liðsins gegn ÍA um síðustu helgi og dómari leiksins hafi jafnvel ætlað að úrskurða völlinn óleikhæfan.

„Þegar á leið varð völlurinn betri en í ljósi aðstæðna þá kjósum við í samráði við leikmenn og þjálfara liðsins að færa leikinn á laugardag á gervigras. Við komum þannig í veg fyrir slysahættu og getum þá vonandi boðið upp á skemmtilegri fótbolta,“ sagði Stefán Páll Magnússon í samtali við mbl.is.

Leiknir tekur á móti Keflavík og á sama tíma tekur ÍA á móti ÍBV. Með óhagstæðum úrslitum eiga bæði Leiknir og ÍA í hættu á að falla úr Bestu deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert