Skagamenn komu til baka í seinni hálfleik í leik liðsins gegn ÍBV á Akranesi í dag. ÍBV var í vænlegri stöðu hafandi skorað fyrstu tvö mörkin en með tveimur mörkum með stuttu millibili og sigurmarki undir lok leiks náði ÍA að tryggja sér sigurinn. Ótrúleg endurkoma!
Það var ÍBV sem byrjaði betur í ansi kaflaskiptum leik. Gestirnir skoruðu snemma með glæsimarki frá Felix Erni Friðrikssyni, 0:1. Þeir komust svo í 2:0 snemma í seinni hálfleik með marki frá Breka Ómarssyni, sem hafði komið inná sem varamaður í upphafi seinni hálfleiks.
Skagamenn vöknuðu um miðjan seinni hálfleikinn og jöfnðu leikinn á þriggja mínútna kafla með mörkum frá Viktori Jónssyni og Ármanni Inga Finnbogasyni, sem hafði komið inn á sem varamaður stuttu áður. Það var Viktor Jónsson sem átti stoðsendinguna á Ármann.
Það var svo andartaki áður en Sigurður Hjörtur flautaði leikinn af sem Hlynur Sævar Jónsson skoraði sigurmark Skagamanna af harðfylgi eftir hornspyrnu. Viktor Jónsson fleytti boltanum þá áfram á Hlyn sem kom honum í netið, lokatölur 3:2.
Það verður að teljast ansi líklegt að hlutskipti ÍA verði að spila í Lengjudeildinni á næstu leiktíð því þó FH sé aðeins þremur stigum fyrir ofan Skagamenn munar 22 mörkum á markatölu liðanna. FH sækir Fram heim á morgun áður en liðið fær ÍA í heimsókn í lokaumferðinni um næstu helgi.
Mbl.is fylgdist með gangi mála á Akranesi í beinni textalýsingu í dag.