Getum líka verið „leiðinlegt“ lið

Oliver Sigurjónsson varð Íslandsmeistari með uppeldisfélaginu í dag.
Oliver Sigurjónsson varð Íslandsmeistari með uppeldisfélaginu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér fannst ótrúlega gaman að vinna en við hefðum viljað vinna stærra miðað við færin okkar,“ sagði Oliver Sigurjónsson, sem átti góðan leik í vörninni eða miðjunni hjá Blikum þegar þeir unnum Víkinga 1:0 í Kópavoginum í dag en þá fór fram síðasta umferð efstu deildar karla í fótbolta þar sem Breiðablik lyfti skildinum.   

„Mér fannst frammistaða okkur frábær og sýndum að við getum líka – hvernig get ég orðað það – verið „leiðinlegt“ lið og farið langt á baráttunni.   Þar eru líka framfarir okkar, við höfum líka sýnt að við erum baráttulið og ekki látið slá okkur útaf laginu þó það sé sparkað í okkur.   Mér finnst blandan í liðinu, ungir og gamlir, góð en það er líka búið að búa til æfingakúltúr þar sem má sparka í menn og þjálfararnir hafa ekki gert mikið af því að dæma aukaspyrnur á æfingum og haldið miklum hraða.  Við erum því vanir að láta sparka í okkur svo það er mikilvægt að vera með líkamlega sterka menn og baráttuglaða en þegar upp er staðið þá erum við líka með góða fótboltamenn.“

Í fyrra voru Blikar nærri því að vinna titilinn en tap fyrir FH í næstsíðustu umferð setti stórt strik í reikninginn og þegar upp var staðið skipti það sköpum enda er það Oliver hugleikið.  „Það hefur verið andleg áskorun hjá okkur í nokkur ár að halda forystu og ótrúlegt að segja það en það var svo ótrúlega mikil hvatning að tapa fyrir FH í fyrra því þá var endalaust hamrað á góða frammistöðu, spila vel og ná þéttleika í liðið en ekki gefa auðveld mörk.  Við erum að mínu mati góðir í að fara hratt upp völlinn og góðir í að skora svo það hefur skilað sér enn betur vegna þess hve varnarleikurinn hefur verið góður.   Nú er fagnað, tökum svo frí en síðan er bara næsta verkefni því við erum ekki orðnir meistarar árið 2023.  Það verður því að keyra í gang og markmiðið er sett á þann titil,“  sagði Oliver.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert