Hefur mikla trú á þessu liði

Ísak Andri Sigurgeirsson var valinn efnilegasti leikmaður sumarsins og lagði …
Ísak Andri Sigurgeirsson var valinn efnilegasti leikmaður sumarsins og lagði upp tvö mörk í dag. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Þetta er mikill heiður, og gaman að vinna þetta,“ segir Ísak Andri Sigurgeirsson, leikmaður Stjörnunnar, en hann var valinn efnilegasti leikmaður Íslandsmótsins 2022. Hann kórónaði svo góða frammistöðu í sumar með því að leggja upp tvö mörk í 2:0 sigri Stjörnunnar á KR í Vesturbænum í dag.

Ísak Andri segir aðspurður hvort útnefningin hafi komið honum á óvart að hann hefði ekkert frétt af þessu fyrir leikinn, en að sig hafi farið að gruna ýmislegt þegar hann sá gripinn koma á Meistaravelli, þar sem hann var eini leikmaður beggja liða sem var tilnefndur.

-En gaf þetta þér aukakraft inn í leikinn? „Já, alveg smá, auðvitað eykur þetta bara sjálfstraustið og gaman að fá þetta inn í leikinn,“ segir Ísak Andri, en hann var einn af bestu mönnum leiksins í dag. Fyrir utan mörkin tvö sem hann lagði upp, þá náði Ísak einnig að skora eitt, en það var dæmt af vegna rangstöðu.

Ísak Andri segir raunar að sér finnist alveg jafngaman að leggja upp mörkin og að skora þau. „Já, mér finnst það. Mér finnst skemmtilegt að geta gert þessa hluti og búið eitthvað til fyrir liðsfélagana. Mér finnst það jafnmikilvægt og að skora mörkin.“

Hann bætir við sér finnist Stjarnan vera á góðri vegferð fyrir næsta tímabil. „Það er mikið af ungum leikmönnum og skemmtilegum sem eru að koma upp. Þeir verða allir árinu eldri á næsta tímabili, þannig að ég held að við þurfum bara að halda áfram á sömu braut og reyna að gera enn betur á næsta tímabili.“

Ísak segir að lokum að hann hafi mikla trú á liðinu, bæði þeim yngri og þeim eldri sem miðli af reynslu sinni til liðsins. „Ég tel að þetta lið geti gert góða hluti næstu ár.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert