Hiti, rígur og meiri barátta en minni fótbolti

Blikar lyfta meistaraskildinum.
Blikar lyfta meistaraskildinum. mbl.is/Óttar Geirsson

„Mér fannst góð frammistaða hjá okkur og góð barátta í liðinu okkar - sjálfur hefði ég átt að nýta færin sem ég fékk en þessu lauk samt með sigri okkar,“ sagði Ísak Snær Þorvaldsson markahrellir Breiðabliks eftir 1:0 sigur á Víkingum í dag  en hann lék vörn Víkinga oft grátt og skoraði markið sem skipti öllu þegar liðin mættust í Kópavogi í dag í síðustu umferð efstu deildar karla í fótbolta.

„Við bjuggumst við að það yrðu læti, eins og allir okkar leikir við Víking, mikill hiti og rígur á milli þessara liða svo það er meiri barátta og minni fótbolti og þannig var það í dag.  Það kemur stundum fyrir að það dettur ekki allt fyrir mann, eins og gerðist hjá mér og Jasoni Daða í dag en hann hefur átt geggjað tímabil, spilað  meiddur megnið að tímabilinu og að hann skuli enn standa í lappirnar eftir þetta tímabil er alveg geggjað.   Hann á mikið hrós skilið.“

Ísak Snær hefur átt gott sumar með 14 mörkum og sáttur með sumarið með Blikum en er að yfirgefa Kópavoginn. „Mér finnst sumarið hafa verið frábært, reyndar langt og erfitt en lið okkar tilbúið fyrir einmitt langt sumar og við börðumst í gegnum það.  Frá því að ég kom í Breiðablik fannst mér alltaf markmiðið að taka titilinn og það gerðum við á endanum,“ sagði Ísak Snær sem hefur samið við norska liðið Rosenborg.

Ég fer líklega þangað eftir áramót og er spenntur fyrir því, geggjaður klúbbur og flottir strákar, til dæmis er Kristall Máni og Selma þarna og fullt af handboltafólki svo þetta verður spennandi.  Nú klára ég að fagna, svo get ég farið.

Vildum ekki fara inn í veturinn með buxurnar á hælunum

Anton Ari Einarsson markmaður Blika fékk heiðursskipting í leiknum við Víkinga og var ákaft fagnað þegar hann gekk af velli. „Mér fannst þetta bara snilld og erfitt að lýsa því nema segja að þetta hafi verið alveg geggjað, við ætluðum að koma í þennan leik til að vinna eins og alla aðra.  Þrátt fyrir að titilinn væri í höfn fyrir nokkrum umferðum síðan var mikilvægt að vinna þennan leik og gera það sem áttum að gera því þú vilt ekki fara inn í veturinn með buxurnar á hælum,“  sagði markmaðurinn eftir sigurleikinn og sáttur við að liðið hafi farið gegnum sumarið með sæmd.

„Mér fannst reyna mikið á þegar bikarkeppnin, Evrópuleikir og allt það var í gangi en mér fannst við halda dampi í allt sumar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert