KA tók 2. sætið og Nökkvi markahæstur 

Hallgrímur Mar Steingrímsson fagnar í dag.
Hallgrímur Mar Steingrímsson fagnar í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Í lokaumferð Bestu-deildar karla í dag tók KA á móti Val í leik þar sem heimamenn unnu þægilegan 2:0-sigur eftir að Valsmenn misstu mann af velli með rautt spjald. 

Fyrir leik var KA í 2. sæti með 50 stig en Valur var í 5. sæti með 35 stig. KA gat ekki farið ofar en átti á hættu að missa 2. sætið til Víkinga. Valsmenn voru í möguleika á að hækka sig um eitt sæti en þeir gátu einnig dottið niður í 6. sætið. Eftir jafnan leik framan af þá tók KA völdin í leiknum. 

Akureyringar náðu þar með sínum besta árangri í karlafótboltanum frá því að KA vann Íslandsmeistaratitilinn árið 1989. KA endaði í 2. sæti með 53 stig en Valur datt niður í 6. sætið með sín 35 stig. 

Einmuna veðurblíða var á Akureyri í dag og liðin því að spila við kjöraðstæður, miðað við árstíma. Það var logn, sólskin og eins hár hiti og hugsast gat. 

Valsmenn byrjuðu leikinn töluvert betur og ógnuðu með nokkrum skotum. Smám saman komust heimamenn inn í leikinn og var sótt á víxl þar til straumhvörf urðu eftir rúman hálftíma. Þá fékk Valsmaðurinn Lasse Petry reisupassann eftir að hafa varið skot Daníels Hafsteinssonar á marklínunni. Víti var dæmt og afgreiddi Hallgrímur Mar Steingrímsson vítaspyrnuna örugglega í markið. Nokkru síðar skoraði Hallgrímur Mar aftur og hann var nálægt því að skora aftur fyrir hálfleiksflautið. Staðan var vænleg fyrir KA í hálfleik, 2:0 og manni fleiri. 

Seinni hálfleikurinn var afar tíðindalítill og hvorugt liðið lagði eitthvað ofurkapp á að setja mark. KA-mönnum leið vel með sína stöðu og Valsmenn náðu lítið að ógna þeim.  

KA á líka markahæsta leikmann deildarinnar í Nökkva Þey Þórissyni. Hann skoraði 17 mörk í 20 leikjum áður en hann var seldur til Beershot í Belgíu. Framarinn Guðmundur Magnússon fékk fullt af aukaleikjum til að komast í 18 mörk, gegn öllum slökustu liðunum, en honum tókst aðeins að jafna við Nökkva Þey. Þeir skoruðu báðir 17 mörk í sumar en Nökkvi Þeyr fær gullskóinn þar sem hann spilaði mun færri leiki en Guðmundur.  

KA 2:0 Valur opna loka
90. mín. Mikael Breki Þórðarson (KA) kemur inn á
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert