Enduðu á tapi gegn Frökkum

Jörundur Áki Sveinsson þjálfar U17 ára landsliðið.
Jörundur Áki Sveinsson þjálfar U17 ára landsliðið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Drengjalandsliðið í knattspyrnu, skipað leikmönnum yngri en 17 ára,  mátti sætta sig við ósigur gegn Frökkum í lokaleik undanriðilsins fyrir Evrópumótið sem fram fór í Norður-Makedóníu í dag.

Frakkar sigruðu 4:0 en þeir skoruðu tvö mörk í fyrri hálfleik og önnur tvö á síðustu mínútum leiksins. Bæði liðin voru þegar komin áfram í milliriðil fyrir lokaumferðina í dag en Frakkar fengu níu stig, Íslendingar sex, Lúxemborgarar þrjú en Norður-Makedóníumenn ráku lestina stigalausir.

Ísland og Frakkland leika í milliriðli keppninnar seinna í vetur en þar verður leikið um sæti í lokakeppninni sem fer fram í Ungverjalandi næsta sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert