Knattspyrnumaðurinn reyndi, Guðmundur Kristjánsson, er genginn til liðs við Stjörnuna eftir að hafa leikið með FH síðustu fimm árin.
Stjarnan skýrir frá þessu á samfélagsmiðlum en ekki kemur fram yfir hversu langt tímabil samningurinn mun gilda, aðeins sagt að hann muni leika með félaginu næstu árin.
Guðmundur er 33 ára gamall og lék lengst af ferlinum sem miðjumaður en hefur verið í stöðu miðvarðar hjá FH síðustu ár.
Guðmundur er uppalinn hjá Breiðabliki og lék með meistaraflokki félagsins frá 2007 og varð þar bikarmeistari árið 2009 og Íslandsmeistari árið 2010. Eftir tímabilið 2011 fór hann til Noregs og lék með Start í sex ár en sneri þá aftur heim og gekk til liðs við FH.
Guðmundur lék sex A-landsleiki á árunum 2009 til 2014 og spilaði áður með öllum yngri landsliðum Íslands. Hann hefur leikið 156 leiki í úrvalsdeild hér á landi og lék 148 deildaleiki í Noregi en þar spilaði hann fjögur ár af sex hjá Start í úrvalsdeildinni.