Sólveig Jóhannesdóttir Larsen hefur ákveðið að nýta sér uppsagnarákvæði í samningi sínum við Íslands- og bikarmeistara Vals og er því frjálst að róa á önnur mið.
Samningur hinnar 21 árs gömlu Sólveigar átti að gilda út næsta tímabil.
Hún leikur oftast í stöðu kantmanns og hefur komið víða við þrátt fyrir ungan aldur þar sem hún á að baki 76 leiki í efstu deild og 15 í næstefstu deild.
Sólveig er uppalin hjá Breiðabliki en hóf meistaraflokksferil sinn hjá venslafélaginu Augnabliki aðeins 14 ára gömul.
Hún hefur auk Breiðabliks og Vals leikið með HK/Víkingi, Fylki og Aftureldingu í efstu deild, en hún var að láni í Mosfellsbænum fyrri hluta nýafstaðins tímabils.