Landsliðskona lætur KSÍ heyra það

Dagný Brynjarsdóttir á að baki 108 A-landsleiki.
Dagný Brynjarsdóttir á að baki 108 A-landsleiki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagný Brynjarsdóttir, landsliðskona Íslands í knattspyrnu, birti áhugaverða færslu á samfélagsmiðlinum Instagram í dag.

Í færslunni gagnrýndi hún vinnubrögð KSÍ en Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins, lék í dag sinn 100. A-landsleik gegn Sádi-Arabíu í vináttulandsleik sem fram fór í Abu Dhabi í Sam­einuðu ar­ab­ísku fursta­dæmun­um.

Eftir leikinn fékk Aron Einar landsliðstreyju að gjöf frá Knattspyrnusambandinu, með nafni sínu á treyjunni ásamt tölunni 100.

„Birkir Bjarna fékk treyju eftir sinn leik í september 2021,“ skrifaði Dagný á Instagram.

„Aron Einar fékk treyju eftir sinn leik í dag. Við Glódís Perla [Viggósdóttir] erum ennþá að bíða eftir okkar 100 leikja treyju síðan í apríl!

Litlu hlutirnir í þessari blessuðu baráttu alla daga,“ bætti Dagný við en hún og Glódís Perla léku báðar sinn 100. landsleik gegn Hvíta-Rússlandi hinn 7. apríl í undankeppni HM 2023 í Belgrad í Serbíu.

Dagný birti færsluna á Instagram í dag.
Dagný birti færsluna á Instagram í dag. Ljósmynd/Instagram
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert