Margrét Lára tekur undir gagnrýni í garð KSÍ

Dagný Brynjarsdóttir, Fanndís Friðriksdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir fagna á …
Dagný Brynjarsdóttir, Fanndís Friðriksdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir fagna á Laugardalsvelli í febrúar árið 2019. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Margrét Lára Viðarsdóttir, fyrrverandi landsliðsfyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, birti færslu á Facebook í gærkvöldi þar sem hún tók undir gagnrýni Dagnýjar Brynjarsdóttir í garð Knattspyrnusambands Íslands.

Dagný, sem á að baki 108 A-landsleiki, gagnrýndi KSÍ í færslu sem hún birti á Instagram þar sem Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði karlalandsliðsins, fékk treyju að gjöf frá sambandinu eftir að hafa leikið sinn 100. landsleik gegn Sádi-Arabíu í Abu Dhabi í Sam­einuðu ar­ab­ísku fursta­dæmun­um.

Dagný, ásamt Glódísi Perlu Viggósdóttur, lék sinn 100. A-landsleik gegn Hvíta-Rússlandi í apríl á þessu ári en hvorug þeirra fékk treyju að gjöf frá sambandinu og á því byggðist gagnrýni Dagnýjar.

„Í ljósi umræðu um litlu hlutina,“ segir Margrét Lára í upphafi færslunnar en hún gaf mbl.is leyfi til þess að hana í heild.

„Ég spilaði minn síðasta landsleik 8.9. 2019 eftir frekar farsælan landsliðsferil. Spilaði með öllum landsliðum Íslands frá 14 ára aldri, semsagt 18 ár! Ég hef ALDREI verið kvödd né fengið tækifæri til að þakka stuðningsmönnum landsliðsins fyrir mig. Ætli sé verið að bíða eftir að ég taki fram skóna aftur? 😂😂

Frábært að strákarnir fái sæmandi viðurkenningar, plís ekki hætta því, gerum bara betur við ALLA! Takk Dagný Brynjarsdóttir fyrir að vekja athygli á þessu,“ sagði Margrét Lára sem lék 124 A-landsleiki á ferlinum og er markahæsti leikmaður í sögu kvennalandsliðsins með 79 mörk en færslu hennar má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert