Valdimar Svavarsson, formaður knattspyrnudeildar FH, útilokar ekki að Eiður Smári Guðjohnsen snúi aftur í þjálfarateymi félagsins þegar hann hefur unnið í sínum málum.
Þetta kom fram í samtali Valdimars við 433.is en Eiður Smári steig til hliðar sem þjálfari FH í byrjun október eftir að hafa verið gripinn við ölvunarakstur.
Hafnfirðingar hafa boðað til stuðningsmannakvölds í Kaplakrika í kvöld þar sem nýtt þjálfarateymi verður kynnt til sögunnar en Heimir Guðjónsson hefur verið sterklega orðaður við stöðuna.
„Okkar afstaða til Eiðs Smára er skýr,“ sagði Valdimar í samtali við 433.is.
„Við stöndum með honum í því að koma sínum málum á réttan stað. Við þurfum samt fyrst og fremst að horfa á félagið og hvernig við skipum nýjan hóp fyrir næsta vetur og sumar. Við þurfum að búa til teymi sem tekur þá vinnu á næstunni.
Við viljum halda einhvers konar leið opinni fyrir Eið í framhaldinu en það verða einhverjar smá breytingar á því frá því sem áður var fyrirhugað.
Við viljum gjarnan finna verkefni og sjá hvernig staðan verður þegar þessu ferli er lokið. Hvert það verður og hvernig, það verður tíminn að leiða í ljós,“ bætti Valdimar við í samtali við 433.is.