Heimir Guðjónsson gerði í kvöld þriggja ára samning við knattspyrnudeild FH og mun hann þjálfa karlalið félagsins. Sigurvin Ólafsson verður aðstoðarmaður Heimis.
Heimir er goðsögn hjá FH, en hann gerði liðið fimm sinnum að Íslandsmeistara, síðast árið 2016. Þá lék hann einnig með liðinu á árunum 2000 til 2005 og varð meistari síðustu tvö árin.
Eftir gott gengi hjá FH stýrði Heimir bæði Val og HB í Færeyjum. Gerði hann bæði lið að landsmeistara, áður en hann var látinn taka pokann sinn hjá Val í sumar.
Þá verða þeir Björn Daníel Sverrisson og Eggert Gunnþór Jónsson áfram hjá félaginu, en þeir voru samningslausir eftir síðustu leiktíð.
Heimir fær verðugt verkefni hjá FH, því liðið rétt hélt sér uppi í deild þeirra bestu á markatölu á nýliðinni leiktíð.