Óskar Örn farinn frá Stjörnunni

Óskar Örn Hauksson í leik með Stjörnunni á tímabilinu.
Óskar Örn Hauksson í leik með Stjörnunni á tímabilinu. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Óskar Örn Hauksson og knattspyrnudeild Stjörnunnar hafa komist að samkomulagi um að rifta samningi leikmannsins reynda ári fyrr en samningurinn kvað upphaflega á um.

Hinn 38 ára gamli Óskar Örn gekk til liðs við Stjörnuna snemma á þessu ári eftir langvarandi dvöl hjá KR, með stöku hléum er hann lék í Noregi og Kanada.

Hann samdi þá til tveggja ára í Garðabænum en er nú frjálst að róa á önnur mið.

„Stjarnan & Óskar Örn Hauksson hafa komist að samkomulagi um að leikmaðurinn kveðji okkur eftir eitt tímabil með liðinu þar sem hann spilaði 31 leik og skoraði í þeim 3 mörk.

Við þökkum Óskari kærlega fyrir sinn tíma hjá félaginu og fyrir sitt framlag ásamt því að óska honum góðs gengis í næsta verkefni sínu!“ sagði í tilkynningu frá knattspyrnudeild Stjörnunnar.

Einar Karl Ingvarsson, Ólafur Karl Finsen og Kristófer Konráðsson verða sömuleiðis ekki áfram í herbúðum Stjörnunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert