Knattspyrnudeild Víkings úr Reykjavík hefur gert samning við Matthías Vilhjálmsson til tveggja ára. Hann kemur til Víkings úr FH og verður Fossvogsliðið þriðja liðið sem Matthías leikur með hér á landi.
Hinn 35 ára gamli Matthías er uppalinn á Ísafirði, en gekk í raðir FH árið 2004. Var hann hjá félaginu meira og minna til ársins 2013. Hann hefur einnig leikið með Start, Rosenborg og Vålerenga í Noregi. Þá var hann um tíma hjá Colchester á Englandi.
Hann hefur alls leikið 163 leiki í efstu deild hér á landi og skorað í þeim 53 mörk. Hann skoraði níu mörk í 26 leikjum í Bestu deildinni á leiktíðinni.
„Ég er gríðarlega ánægður að fá Matta til liðs við okkur Víkinga. Ég hef þekkt hann í ansi mörg ár eða frá því við spiluðum saman hjá FH árið 2006. Matti er gæðaleikmaður sem hugsar mjög vel um sig og er hungraður í að hjálpa okkur við gera atlögu að titlum sem og að ná góðum árangri í Evrópukeppninni.
Mikilvægast þó er að Matti er einstaklega góð manneskja sem mun hjálpa ungu leikmönnunum okkar að þroskast og bæta sinn leik,“ er haft eftir Arnari Gunnlaugssyni, þjálfara Víkings, í yfirlýsingu félagsins.