Vinstri bakvörðurinn Birgir Baldvinsson hefur skrifað undir þriggja ára samning við knattspyrnudeild KA.
Birgir nýtti sér uppsagnarákvæði í samningi sínum við Akureyrarfélagið í síðasta mánuði eftir að hafa leikið sem lánsmaður hjá Leikni úr Reykjavík á síðasta tímabili, þar sem hann stóð sig vel.
Báðir aðilar voru þó áhugasamir um að halda samstarfinu áfram og verður Birgir áfram hjá uppeldisfélaginu næstu þrjú tímabil.
Birgir, sem er 21 árs gamall, hefur aðeins leikið einn leik fyrir KA, sumarið 2018, en hefur verið að láni hjá Leikni undanfarin þrjú sumur og var einnig hálft tímabil að láni hjá Aftureldingu.
Alls hefur hann leikið 25 leiki í efstu deild og skorað í þeim tvö mörk, bæði fyrir Leikni í sumar, og þá á hann 13 leiki að baki í næstefstu deild.
„Þetta eru stórkostlegar fréttir enda hefur hann vakið verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína á nýliðnu sumri.
Það var eðlilega mikill áhugi á Birgi eftir sumarið og erum við afar ánægð með að halda honum innan okkar raða og alveg klárt að hann mun spila stórt hlutverk á næstunni í okkar öfluga liði,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá knattspyrnudeild KA.