Jóhann Berg Guðmundsson segir íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu staðráðið í að vinna Eystrasaltsbikarinn, sem hefst með leik gegn Litháen í undanúrslitum mótsins á morgun.
Jóhann Berg er á meðal elstu leikmanna liðsins, 32 ára gamall, og segir tilfinninguna sem fylgi því vera prýðilega.
„Hún er bara ágæt. Það er gaman að koma hérna aftur, það er langt síðan ég var hérna síðast. Það er gaman að fá ný andlit í starfsliðið og líka nýja leikmenn, það er gaman að kynnast þeim.
Vonandi gerum við vel í þessum tveimur leikjum sem fram undan eru,“ sagði hann í samtali við KSÍ TV í Litháen, þar sem mótið fer fram, í dag.
Jóhanni Berg líst vel á að taka þátt í Eystrasaltsbikarnum.
„Mjög vel. Það er auðvitað skemmtilegra þegar það er eitthvað undir. Æfingaleikir geta verið hálf leiðinlegir einhvern veginn og það er alltaf skemmtilegra þegar það er eitthvað undir eins og í Eystrasaltsbikarnum.
Við byrjum í undanúrslitunum og viljum komast í þennan úrslitaleik. Við viljum lyfta Eystrasaltsbikarnum, það er klárt mál. Þetta byrjar allt á miðvikudagskvöldið á móti Litháen og vonandi vinnum við og förum í næsta leik og klárum þetta bara,“ sagði hann.
Jóhann Berg hefur glímt við meiðsli undanfarið en er þó allur að koma til og hefur spilað reglulega fyrir Burnley. Treystir hann sér í að spila tvo leiki í verkefninu?
„Ég er allavega klár í að byrja tvo leiki en held að tvisvar sinnum 90 mínútur sé mjög hæpið. Ég er auðvitað ennþá að byggja mig upp og er á mjög góðum stað og ætla að halda því þannig. Ég er tilbúinn að byrja tvo leiki og svo sjáum við hversu margar mínútur ég spila,“ sagði hann.
Þar sem um útsláttarkeppni er að ræða er möguleiki á að leikirnir fari í vítaspyrnukeppni.
„Ég verð klár í vítaspyrnukeppni en við verðum búnir að klára þetta fyrir það. Það er auðvitað markmiðið, við nennum engu vítaspyrnurugli. Við ætlum að klára leikina. Ég hef fulla trú á þessum hópi og þessum leikmönnum, að við munum klára leikina,“ sagði Jóhann Berg.
Að lokum sagði hann íslenska liðið stefna á sigur í Eystrasaltsbikarnum.
„Já það er klárt. Við erum ekki ennþá að byggja upp nýtt lið og ég held að allir séu byrjaðir að þekkja velinn á hvorn annan. Ég held að við höfum séð það í síðasta leik á móti Albaníu að það er fullt til í þessu liði og við ætlum auðvitað bara að bæta ofan á það og vinna þessa leiki sem fram undan eru.“