Vigfús Arnar Jósepsson hefur verið ráðinn nýr þjálfari karlaliðs Leiknis úr Reykjavík í knattspyrnu. Skrifaði Vigfús Arnar undir tveggja ára samning við uppeldisfélagið, en hann lék um langt skeið með liðinu.
Vigfús Arnar hefur áður þjálfað liðið, sumarið 2018, þegar hann náði að halda liðinu í næstefstu deild.
Hann kom inn í þjálfarateymið um mitt sumar á nýafstöðnu tímabili og er nú tekinn við af Sigurði Heiðari Höskuldssyni, sem er tekinn við stöðu aðstoðarþjálfara hjá karlaliði Vals.
Leiknir féll úr Bestu deildinni í haust og leikur því í næstefstu deild að ári.
„Leiknir er búið að finna arftaka Sigga Höskulds til að leiða meistaraflokkinn inn í 50 ára afmælisárið og framyfir það. Það þarf vart að kynna manninn en hann kom aftur í Holtið um mitt sumar og er nú tekinn við sem aðalþjálfari. Vigfús Arnar Jósepsson, dömur og herrar.
Vigfús fór inn í Heiðurshöll félagsins í sumar sem leikmaður og hann átti stóran þátt í því að halda liðinu uppi í 1. deild árið 2018 þegar hann tók við stjórnartaumunum af Kristófer það árið. Nú er þessi uppaldi Leiknismaður klár í slaginn sem aðalþjálfari meistaraflokks og við erum spennt fyrir því að sjá hvernig hann mun leiða hópinn inn í nýja tíma. Vigfús skrifaði undir tveggja ára samning við félagið í dag.
Á sama tíma skrifaði Halldór Geir Heiðarsson undir nýjan tveggja ára samning sem aðstoðarþjálfari. Við þekkjum hann sem Donn[a] og var hann upphaflega ráðinn í fyrra sem yfirþjálfari félagsins en í haust var Atli Jónasson ráðinn í þá stöðu og því getur Donni nú einbeitt sér að fullu að meistaraflokksþjálfuninni með Fúsa,“ sagði í tilkynningu frá knattspyrnudeild Leiknis.