Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu var ánægður í viðtali við KSÍ eftir sigur á Lettlandi í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik Eystrasaltsmótsins.
„Tilfinningin er bara góð. Það er alltaf gaman að vinna bikar og það var orðið langt síðan síðast. Ætli það séu ekki einhver 30 ár síðan maður vann síðast bikar. Við erum bara stoltir af því að hafa tekið þátt og unnið, kláruðum þennan leik í dag með sæmd og mér fannst við spila vel. Það var eiginlega alveg ótrúlegt að þetta hafi farið alla leið í vítakeppni, við fengum all mörg tækifæri til að klára þetta í venjulegum leiktíma.
Við vorum með ákveðið leikplan fyrir leikinn og þegar við lendum manni fleiri þá snerist þetta bara um að reyna halda háu tempói, koma fyrirgjöfum í teiginn og að menn væri mættir þangað til að ráðast á þær. Það gekk ágætlega, fyrirgjafirnar hefðu kannski getað verið aðeins betri en við áttum tvö eða þrjú stangar- og sláarskot og fengum bara mjög mikið af færum.“
Viðtalið við Arnar Þór má sjá í heild sinni hér að neðan.