Áttum að vera löngu búnir að klára þetta

Daníel Leó Grétarsson í leik með íslenska landsliðinu.
Daníel Leó Grétarsson í leik með íslenska landsliðinu. Eggert Jóhannesson

Daníel Leó Grétarsson var nokkuð sáttur í viðtali við KSÍ eftir sigur Íslands í Eystrasaltsbikarnum í dag. Ísland vann Lettland í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik mótsins. 

„Tilfinningin er nokkuð góð bara. Mér fannst við vera með yfirhöndina allan leikinn og áttum að vera löngu búnir að klára þetta. Við kláruðum hann í vító og verðum bara að læra af því.“

Íslenska liðið setti boltann oftar en einu sinni í stöng og slá andstæðingsins í leiknum og virtist boltinn hreinlega ekki vilja yfir línuna.

„Maður var farinn að halda að þetta myndi bara ekki fara inn. Við héldum samt áfram og mér fannst við skapa mikið, við hefðum átt að klára þetta en við verðum líka að halda einbeitingu. Við fáum á okkur þetta klaufamark en svona er þetta bara.

Maður hefur ekkert oft farið í vítaspyrnukeppni en við tökum alla reynslu inn á okkur og reynum að bæta okkar leik. Aðstæður í dag voru erfiðar en við reyndum að einbeita okkur að því sem við gátum stjórnað og mér fannst það takast ágætlega í dag.“

Viðtalið við Daníel Leó má sjá í heild sinni hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert