Ísland er sigurvegari Eystrasaltsmótsins í fótbolta en karlalandsliðið vann Lettland í vítakeppni Í úrslitaleiknum á Daugava vellinum í Riga í Lettlandi í dag.
Bæði lið unnu undanúrslitaleiki sína á miðvikudaginn í vítaspyrnukeppni. Ísland vann Litháen eftir 0:0 jafntefli og Lettar unnu Eista eftir 1:1 jafntefli. Því um þriðju vítaspyrnukeppni mótsins að ræða.
Íslenska liðið byrjaði betur og átti nokkur góð upphlaup en án árangurs. Lettneska liðið vann sig svo betur inn í leikinn og sótti meðal annars gul spjöld á tvo íslenska menn, Stefán Teit Þórðarson og Davíð Kristján Ólafsson, með stuttu millibili um miðjan hálfleik.
Á 28. mínútu gerðist svo risa atvik. Þá fór Lettinn Raimondos Krollis aftan í Daníel Leó Grétarsson og dómarinn dæmdi aukaspyrnu. Nokkru síðar eftir að hafa hugsað sig um rak hann sóknarmanninn af velli. Vægast sagt umdeildur dómur þar á ferð og íslenska liðið orðið manni fleiri.
Á 42. mínútu komst Mikael Andersen í mjög gott færi en Steinbors markvörður varði frá honum. Þannig má segja að Ísland hafi fengið færi til að komast yfir en náði ekki alveg að nýta sér mismuninn það sem eftir lifði af fyrri hálfleik og liðin héldu til búningsklefa jöfn, 0:0.
Á 62. mínútu fékk Ísland svo víti. Þá gaf Mikael boltann fyrir og Arnór Sigurðsson stökk á hann. Skalli Arnórs fór þó beint í höndina Raivis Jurkovskis og dómarinn benti á punktinn. Á hann steig Ísak Bergmann Jóhannesson sem skaut ofarlega hægra megin. Pavles Steinbros markvörður kom hendinni í hann en það dugði ekki því hann rataði inn.
Vandræðagangur í vörn Íslands varð svo að því að Lettarnir jöfnuðu sex mínútum síðar. Þá sendi Aron Elís Þrándarson alltof fasta sendingu á Stefán Teit og Janis Ikaunieks komst í boltann. Hann þræddi svo Andrejs Ciganiks í gegn sem negldi boltanum í þaknetið, vel klárað og allt jafnt 1:1 en afar klaufalegt hjá íslenska liðinu.
Ísland skapaði sér svo nokkur færi eftir jöfnunarmark Letta. Sem dæmi má nefna skalla Sveins Arons Guðjohnsen í slánna og utanfótarskot Ísaks Bergmanns rétt innan teigs sem Steinbors varði.
Á 92. mínútu fékk Þórir Jóhann Helgason boltann á fjærstönginni vinstra megin og hamraði boltanum í samskeytin, hefði verið glæsilegt mark.
Það var þó síðasta atvik leiksins og um vítakeppni að ræða.
Leikmenn Íslands voru öruggir á vítapunktinum og skoruðu úr öllum átta spyrnunum sem þeir tóku. Í áttundu spyrnu Letta, sem höfðu skorað úr fyrstu sjö spyrnum sínum, steig Antonijs Cernomordijs á punktinn en Patrik Sigurður Gunnarsson varði vel frá honum og tryggði íslenska liðinu Eystrasaltsbikarinn.
Frammistaða landsliðsins í dag var ekki nægilega góð. Að vera manni fleiri í meira en 62. mínútur og sýna ekki aðeins betri frammistöðu en þetta, ásamt því að fá ansi klaufalegt mark á sig, má bæta.
Strákarnir voru þó afar öruggir á vítapunktinum og sigur er sigur. Ásamt því er vel gert að hafa unnið þetta mót, ef eitthvað jákvætt má taka úr leiknum, auk þess sem liðið átti 22 marktilraunir í leiknum gegn sjö frá Lettum.