Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu skipað leikmönnum 19 ára og yngri tapaði 2:0 gegn Frakklandi í undankeppni EM í dag. Leikurinn fór fram í Skotlandi.
Ísland vann Skotland í fyrsta leik riðilsins á dögunum en náðu ekki að fylgja þeim sigri eftir í dag. Marvin De Lima, leikmaður Bordeaux kom Frökkum yfir í fyrri hálfleik áður en Wakis Kore leikmaður Paris FC bætti við marki í þeim síðari.
Frakkar eru á toppi riðilsins með 6 stig en Ísland og Skotland koma næst með 3 stig hvor. Kasakstan er á botninum án stiga en Ísland mætir einmitt Kasakstan á þriðjudaginn í lokaumferðinni.
Tvö efstu liðin komast áfram í milliriðil þannig að staða íslenska liðsins er góð fyrir síðasta leikinn.