„Þetta fór í taugarnar á manni á einhverjum tímapunkti en það gerir það ekki lengur,“ sagði Viktor Örn Margeirsson, nýkrýndur Íslandsmeistari með karlaliði Breiðabliks í knattspyrnu, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Viktor Örn, sem er 28 ára gamall, hefur verið í stóru hlutverki hjá Breiðabliki frá árinu 2018.
Þrátt fyrir að hafa spilað nánast alla leiki Blika frá þessum tíma, þegar hann hefur verið heill heilsu, hefur hann ekki alltaf fengið það hrós sem hann á skilið fyrir frammistöðu sína.
„Ég hef nákvæmlega enga stjórn á því hvað fjölmiðlamenn og hlaðvarpslistamennirnir fjalla um,“ sagði Viktor.
„Það fylgir því alveg nógu mikið áreiti að spila fótbolta þannig að ég ákvað að kúpla mig út úr allri umfjöllun fyrir þetta tímabil,“ sagði Viktor meðal annars.
Viðtalið við Viktor Örn í heild sinni má nálgast með því að smella hér.