Liðstyrkur í Hafnarfjörðinn

Berglind Þrastardóttir og Sara Montoro.
Berglind Þrastardóttir og Sara Montoro. Ljósmynd/FH

Knattspyrnukonurnar Sara Montoro og Berglind Þrastardóttir hafa báðar skrifað undir samning við FH og munu þær leika með liðinu í Bestu deildinni á næstu leiktíð.

Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag en báðar skrifuðu þær undir þriggja ára samning í Hafnarfirðinum.

Sara, sem er 19 ára gömul, kemur til félagsins frá Fjölni þar sem hún hefur skorað 22 mörk í 60 leikjum með Fjölni í 1. deildinni.

Berglind, sem er 18 ára,  gekk til liðs við FH frá Haukum um mitt síðasta sumar en hún á að baki 43 leiki í 1. deildinni þar sem hún hefur skorað sex mörk.

FH fagnaði sigri í 1. deildinni á síðustu leiktíð eftir að hafa fallið úr úrvalsdeildinni haustið 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert