Ísland í milliriðil eftir sannfærandi sigur

U19 ára landslið Íslands.
U19 ára landslið Íslands. Ljósmynd/KSÍ

Íslenska U19 ára landslið karla í fótbolta vann öruggan 4:1-sigur á Kasakstan í lokaleik sínum í fyrsta lið í undankeppni Evrópumótsins í dag og tryggði sér í leiðinni sæti í milliriðli keppninnar.

Orri Steinn Óskarsson kom íslenska liðinu yfir strax á fjórðu mínútu og Adolf Daði Birgisson bætti við öðru marki á tólftu mínútu, einni mínútu eftir að hann kom inn á sem varamaður fyrir Gísla Gottskálk Þórðarson, sem meiddist.

Orri Steinn bætti við sínu öðru marki og þriðja marki Íslands á 28. mínútu. Saif Popov lagaði stöðuna fyrir Kasakstan á 43. mínútu með marki úr víti.

Íslenska liðið átti hins vegar lokaorðið í fyrri hálfleik, því Hilmir Rafn Mikaelsson bætti við fjórða markinu á 44. mínútu. Voru hálfleikstölur því 4:1.

Ramazan Karimov fékk beint rautt spjald á 50. mínútu hjá Kasakstan og reyndist eftirleikurinn auðveldur fyrir ellefu leikmenn Íslands gegn tíu leikmönnum Kasakstan.

Dregið verður í milliriðla 8. desember, en lokakeppnin fer fram á Möltu 3.-16. júlí. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert