Knattspyrnumaðurinn Ásgeir Marteinsson sem hefur leikið með HK undanfarin ár er genginn til liðs við 1. deildarlið Aftureldingar og samdi við það til tveggja ára.
Ásgeir er 28 ára gamall sóknar- eða miðjumaður sem lék með HK til 2013, með Fram 2014 og ÍA 2015-2016 en sneri þá aftur til HK og hefur leikið með Kópavogsliðinu frá 2017. Hann hefur leikið 48 úrvalsdeildarleiki fyrir HK og samtals 95 á ferlinum, og skorað 14 mörk alls.
Ásgeir tók þátt í að koma HK aftur upp í úrvalsdeildina í ár en han skoraði sex mörk í 21 leik fyrir liðið í 1. deildinni á nýliðnu tímabili.