Knattspyrnumaðurinn Arnór Sveinn Aðalsteinsson er genginn aftur í raðir uppeldisfélags síns, Íslandsmeistara Breiðabliks, eftir sex ára dvöl hjá KR.
Arnór Sveinn, sem leikur oftast í stöðu miðvarðar, lék með Breiðabliki frá 2004 til 2011 þegar hann hélt til Hönefoss í Noregi.
Þar lék hann út árið 2013 og fór svo aftur til Breiðabliks árið 2014. Eftir þrjú tímabil í Kópavoginum gekk hann til liðs við KR fyrir tímabilið 2017.
Arnór Sveinn er 36 ára gamall og varð Íslandsmeistari með Breiðabliki árið 2010 og með KR árið 2019 auk þess að verða bikarmeistari með Blikum árið 2009.
Hann hefur leikið 240 leiki í efstu deild fyrir Breiðablik og KR og skorað í þeim sjö mörk.
Þá hefur Arnór Sveinn leikið 12 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.
„Allir góðir Blikar fagna þessum vistaskiptum enda Arnór Sveinn sannur Bliki og af miklum Blikaættum í marga ættliði. Vertu velkominn heim Arnór Sveinn!“ sagði meðal annars í tilkynningu á Blikar.is.