Knattspyrnumaðurinn Elfar Freyr Helgason er að ganga í raðir Vals og verður hann kynntur hjá félaginu innan skamms.
Fótbolti.net greinir frá. Elvar, sem er 33 ára, lék aðeins fimm deildarleiki með Breiðabliki á síðustu leiktíð, þar sem Damir Muminovic og Viktor Örn Margeirsson mynduðu afar sterkt miðvarðapar meistaranna.
Arnar Grétarsson, sem tók við Val á dögunum, þekkir Elfar vel. Arnar hefur bæði þjálfað Elfar og leikið með honum og þá var Arnar yfirmaður knattspyrnumála hjá AEK í Grikklandi, þegar Elfar gekk í raðir félagsins.
Elfar hefur leikið 179 leiki í efstu deild, alla fyrir Breiðablik, og skorað í þeim fimm mörk. Þá hefur hann einnig verið á mála hjá AEK, Stabæk í Noregi og Randers og Horsens í Danmörku. Hann á einn A-landsleik að baki.