Utanríkisráðuneytið sá ekkert athugavert við samskiptin

Lið Sádi Arabíu vann Ísland 1:0 í vináttulandsleik fyrr í …
Lið Sádi Arabíu vann Ísland 1:0 í vináttulandsleik fyrr í þessum mánuði. AFP/Khaled Desouki

Knattspyrnusamband Íslands hefur sent frá sér fréttatilkynningu vegna umfjöllunar fjölmiðla um samskipti sambandsins við Sádi-Arabíu.

Þar kemur fram að KSÍ hafi haustið 2021 haft samband við utanríkisráðuneytið vegna samskiptanna og ráðuneytið hafi svarað og ekki séð neitt athugavert við fyrirhugað samstarf eða fyrirhugaðan landsleik, sem þá hefði farið fram í janúar 2022, en ekkert varð af.

Þegar beiðni hafi borist frá Sádi-Arabíu í vor um vináttulandsleik í nóvember hafi ekki verið leitað til utanríkisráðuneytisins, þar sem svar þaðan hefði þegar legið fyrir.

Tilkynningin í heild er sem hér segir:

Varðandi samskipti KSÍ við utanríkisráðuneytið vill sambandið koma því á framfæri að haustið 2021 hófust samskipti KSÍ við Knattspyrnusamband Sádi-Arabíu þar sem ræddar voru hugmyndir um samstarf. Hugmyndirnar voru í mörgum liðum og snerust allar um að skiptast á þekkingu og fræðslu um uppbyggingu knattspyrnu, allt frá starfsemi og rekstri knattspyrnusambanda yfir í réttindamál, sem og grasrótarstarf, kvennaknattspyrnu og afreksstarf. Einnig var rætt um mögulegan vináttuleik milli landsliða þjóðanna í janúar 2022.

Í kjölfarið hafði KSÍ samband við utanríkisráðuneytið til að afla upplýsinga og ráðgjafar vegna stöðu mannréttindamála í Sádi-Arabíu. Utanríkisráðuneytið svaraði og sá ekkert athugavert við fyrirhugað samstarf eða fyrirhugaðan landsleik. Ekki varð þó af þessu samstarfi og ekki varð af janúar-leiknum.

Í vor barst svo beiðni frá Knattspyrnusambandi Sádi-Arabíu um vináttuleik þjóðanna í nóvember. KSÍ leitaði ekki eftir áliti utanríkisráðuneytisins vegna þess leiks – því svarið lá fyrir þegar halda átti leik í janúar. Í svari formanns KSÍ í viðtali við Vísi frá því í júní á þessu ári, sem vitnað hefur verið til í fréttum fjölmiðla, er formaðurinn að vísa til þeirra gagna sem lágu fyrir. Í svari utanríkisráðuneytisins kom fram að „ráðuneytið sjái ekkert athugavert við gerð slíks samnings, sem hefur það að leiðarljósi að stofna til samstarfs um leiki milli landsliða í knattspyrnu sem um ræðir”.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert