Njarðvíkingar hafa náð sér í Brasilíumann til að styrkja lið sitt fyrir keppnina í 1. deild karla í fótbolta á næsta keppnistímabili.
Hann heitir Joao Ananias, er 31 árs gamall varnartengiliður og hefur lengst af spilað í hinum ýmsu neðri deildum í Brasilíu. Hann lék á síðasta tímabili með Bylis í B-deildinni í Albaníu. Fyrir nokkrum árum var Ananias í stuttan tíma á mála hjá Ventspils í Lettlandi.
Njarðvíkingar unnu 2. deildina á síðasta tímabili en tveir af lykilmönnum liðsins, Magnús Þórir Matthíasson og Einar Orri Einarsson, eru horfnir á braut. Bjarni Jóhannsson hætti sem þjálfari eftir tímabilið en Arnar Hallsson var ráðinn í hans stað.