Klæmint Olsen, einn mesti markaskorarinn í sögu færeyska fótboltans, er kominn til Breiðabliks á eins árs lánssamningi frá NSÍ Runavík.
Klæmint, sem er 32 ára gamall, hefur leikið allan sinn feril með uppeldisfélagi sínu NSÍ og skorað alls 242 mörk í 363 leikjum fyrir félagið í færeysku úrvalsdeildinni, sem er markamet í deildinni, og þá hefur hann skorað 10 mörk í 54 landsleikjum fyrir Færeyjar. Hann skoraði m.a. gegn Moldóvu, Danmörku og Ísrael í síðustu undankeppni HM.
Á síðasta tímabili skoraði Klæmint 9 mörk í 25 leikjum fyrir NSÍ í færeysku úrvalsdeildinni en lið hans féll úr deildinni. Hann hefur mest skorað 26 mörk í deildinni á einu tímabili, árið 2019, og alls fimm sinnum skorað yfir 20 mörk á tímabili í færeysku deildinni. Þá hefur hann skora sex mörk í Evrópuleikjum með NSÍ á undanförnum fjórum árum.
Um leið og Klæmint var lánaður til Breiðabliks samdi hann á ný við NSÍ til tveggja ára, eða út tímabilið 2024. Áætlunin er því sú að hann snúi aftur til félagsins þegar það verður búið að vinna sér sæti í færeysku úrvalsdeildinni á ný.
Breiðablik verður því með tvo færeyska landsliðsmenn í fremstu víglínu á komandi tímabili því Patrik Johannesen er einnig kominn til Íslandsmeistaranna frá Keflavík.