Finnski knattspyrnumaðurinn Dani Hatakka sem lék með Keflvíkingum á síðustu leiktíð hefur samið við FH-inga um að leika með þeim á komandi keppnistímabili.
Hatakka er varnarmaður sem var í stóru hlutverki hjá Keflvíkingum en hann lék 26 af 27 leikjum þeirra í Bestu deildinni og skoraði fjögur mörk, þrjú þeirra í jafnmörgum leikjum í fyrri umferð mótsins.
Hann er 28 ára gamall og lék áður með m.a. Honka, SJK og KuPS í Finnlandi og með norsku liðunum Hödd og Brann. Samtals hefur Hatakka spilað 233 deildaleiki á ferlinum og skorað í þeim 17 mörk og hann lék 14 leiki með yngri landsliðum Finnlands.
Þar með eru sjö fastamenn Keflavíkurliðsins frá síðasta tímabili horfnir á braut. FH hefur fengið tvo þeirra, Sindra Kristin Ólafsson og Dani Hatakka, Patrik Johannesen fór í Breiðablik, Joey Gibbs í Stjörnuna, Adam Ægir Pálsson í Víking, Rúnar Þór Sigurgeirsson í Öster í Svíþjóð og Kian Williams fór til Valour í Kanada.