Það hefur gengið á ýmsu hjá íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu síðan Arnar Þór Viðarsson tók við þjálfun liðsins í desember árið 2020 en þjálfarinn hefur fengið sinn skerf af gagnrýni síðan hann tók við.
„Ég hef ekkert á móti gagnrýni ef það er einhver þekking á bak við hana. Ef þú ætlar að gagnrýna val mitt á hópnum, liðinu eða taktíkinni sem ég vil spila þá skal ég glaður hlusta ef gagnrýnin er málefnaleg. Því miður er það þannig í dag, í samfélaginu sem við búum í, að gagnrýnin er oft byggð á tilfinningum eða einhverju öðru undirliggjandi sem býr að baki þar sem að þú ert að reyna koma einhverjum öðrum að til dæmis.
Þeirri gagnrýni get ég ekki tekið alvarlega. Á sama tíma eru það oftast þessar skoðanir sem verða hvað háværastar og þeir dreifa sér alla jafna út í samfélagið. Staðan er einfaldlega sú að það er ekkert gaman að því að smella á fréttir sem eru með jákvæða fyrirsögn og neikvæð fyrirsögn selur oft á tíðum miklu betur.
Viðtalið við Arnar Þór má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.