Knattspyrnukonan Júlíana Sveinsdóttir hefur framlengt samning sinn við ÍBV.
Þetta tilkynnti félagið á heimasíðu sinni í dag en samningurinn gildir út keppnistímabilið 2024.
Varnarmaðurinn, sem er 25 ára, hefur verið í lykilhlutverki hjá uppeldisfélagi sínu undanfarin ár en alls á hún að baki 108 leiki fyrir félagið í efstu deild þar sem hún hefur skorað eitt mark.
Þá varð hún bikarmeistari með Eyjaliðinu árið 2017 og hún lék einnig úrslitaleikinn 2016 þegar ÍBV hafnaði í öðru sæti í bikarkeppninni.
„Hún hefur verið traustur leikmaður liðsins undanfarin ár, eða allt frá því að hún lék sinn fyrsta meistaraflokksleik árið 2015,“ segir meðal annars í tilkynningu ÍBV.