Knattspyrnukonan Grace Sklopan er gengin til liðs við Selfoss og mun hún leika með liðinu á komandi keppnistímabili í Bestu deildinni.
Þetta tilkynnti félagið á heimasíðu sinni í dag en Sklopan lék síðast með háskólaliði Auburn í Bandaríkjunum. Hún er 24 ára bandarískur miðjumaður og er einn þeirra leikmanna sem fóru í nýliðavalið fyrir NWSL-atvinnudeildina í janúar.
Samkvæmt sunnlenska.is er henni væntanlega ætlað að fylla skarð taílensku landsliðskonunnar Miröndu Nild sem var í stóru hlutverki hjá Selfyssingum á síðasta ári en hefur lagt skóna á hilluna.
„Grace er teknísk og kvik og mun gefa okkur nýja vídd inni á miðjunni,“ sagði Björn Sigurbjörnsson þjálfari Selfyssinga í tilkynningu frá félaginu.
„Hún getur unnið vel bæði sóknarlega og varnarlega og mun eflaust koma að einhverjum mörkum í sumar,“ bætti þjálfarinn við.
Selfoss hafnaði í fimmta sæti Bestu deildarinnar á síðustu leiktíð með 29 stig.