Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu leikur í A-deild Þjóðadeildar UEFA en dregið verður í riðla í keppninni þann 2. maí í Nyon í Sviss.
Þjóðadeildin var fyrst sett á laggirnar árið 2018 karlamegin en keppni í deildinni kvennamegin hefst í haust.
Alls verður þátttökuþjóðunum kvennamegin skipt niður í þrjár deildir, A-deild, B-deild og C-deild, en í deildinni verða 16 lið alls.
Þar sem Ísland er í 12. sæti á styrkleikalista evrópska knattspyrnusambandsins verður íslenska liðið í þriðja styrkleikaflokki A-deildarinnar.
Það er einkar mikilvægt fyrir íslenska liðið að halda sæti sínu í A-deildinni því liðin í A-deildinni eru örugg um sæti í umspili fyrir EM 2025.