Slóvenski knattspyrnumaðurinn Filip Valencic hefur skrifað undir eins árs samning við ÍBV.
Hann lék síðast með KuPS í Finnlandi en hefur komið víða við á atvinnumannaferlinum og m.a. leikið með Notts County, HJK, Stabæk, Inter Turku, Dinamo Minsk og Monza.
Valencic, sem er 31 árs sóknarsinnaður miðjumaður, átti sín bestu ár í Finnlandi og varð hann meistari með HJK árin 2017, 2018 og 2021.
Þá var hann valinn besti leikmaður ársins í efstu deild Finnlands árin 2017 og 2019. Hann varð markahæsti leikmaður deildarinnar seinna árið.
ÍBV lék í efstu deild á síðasta ári, í fyrsta skipti frá árinu 2019, og hafnaði í áttunda sæti.
ÍBV hefur jafnframt fengið Bjarka Björn Gunnarsson lánaðan frá Víkingi í Reykjavík en hann lék sem lánsmaður með Kórdrengjum í 1. deildinni seinni hluta síðasta tímabils.