„Ég var samningslaus og ég var ekki búin að heyra neitt í stjórnarformönnum félagsins,“ sagði fyrrverandi knattspyrnukonan Ásgerður Stefanía Baldursdóttir í Dagmálum en hún lagði skóna á hilluna síðasta haust eftir afar farsælan feril.
Ásgerður, sem er 36 ára gömul, varð fjórum sinnum Íslandsmeistari með Stjörnunni en hún ákvað nokkuð óvænt að yfirgefa félagið árið 2019.
„Það kemur svo á daginn að stjórnin taldi að ég yrði í minna hlutverki en áður og mér var ekki boðinn nýr samningur,“ sagði Ásgerður.
„Þá fer ákveðin atburðarás af stað og það segir ýmislegt um liðsheildina hjá Stjörnunni að það voru ellefu leikmenn sem yfirgáfu félagið þetta tímabil.
Mér finnst mjög leiðinlegt hvernig staðið var að hlutunum á þessum tíma, bæði varðandi mig og fleiri leikmenn, en ég passa mig á því að horfa ekki á Stjörnuna sem tvo eða þrjá einstaklinga í dag heldur fullt af frábæru fólki sem ég vann með í gegnum tíðina,“ sagði Ásgerður meðal annars.